Vilhelm Poulsen átti frábæran leik fyrir Fram þegar liðið vann tveggja marka sigur gegn Gróttu í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Framhúsi í Safamýri í 14. umferð deildarinnar í kvöld.
Leiknum lauk með 29:27-sigri Fram en Poulsen var markahæstur Framara með 9 mörk.
Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks en Framarar voru sterkari þegar leið á leikinn og leiddu 16:12 í hálfleik.
Framarar voru með þægilegt forskot stærstan hluta síðari hálfleiks en Gróttu tókst að minnka muninn í eitt mark þegar tíu mínútur voru til leiksloka, 23:24.
Liðin skiptust á að skora og var staðan 27:26, Fram í vil, þegar þrjár mínútur voru til leiksloka. Framarar voru hins vegar sterkari á lokamínútunum og fögnuðu sigri.
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson skoraði átta mörk fyrir Fram og Lárus Helgi Ólafsson varði 11 skot í markinu.
Birgir Steinn Jónsson var markahæstur í liði Gróttu með 7 mörk og Ólafur Brim Stefánsson skoraði 6 mörk.
Framarar eru áfram í níunda sæti deildarinnar með 12 stig, líkt og KA og Afturelding, en liðin heyja harða baráttu um sæti í úrslitakeppninni. Grótta er hins vegar í tíunda sætinu með 7 stig.