Stjarnan vann sinn annan leik í röð í úrvalsdeild kvenna í handknattleik, Olísdeildinni, þegar liðið tók á móti HK í TM-höllinni í Garðabæ í 13. umferð deildarinnar í kvöld.
Leiknum lauk með 27:24-sigri Stjörnunnar en Garðbæingar leiddu með einu marki í hálfleik, 15:14.
Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Stjarnan náði mest þriggja marka forskoti um miðjan fyrri hálfleikinn, 12:9.
Staðan var jöfn, 19:19, þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka en þá seig Stjarnan fram úr og fagnaði nokkuð þægilegum sigri í leikslok.
Lena Margrét Valdimarsdóttir og Helena Rut Örvarsdóttir voru markahæstar í liði Stjörnunnar með fimm mörk hvor.
Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir, Elna Ólöf Guðjónsdóttir, Berglind Þorsteinsdóttir og Jóhanna Margrét Sigurðardóttir skoruðu fjögur mörk hver fyrir HK.
Stjarnan er áfram í sjötta sæti deildarinnar með 14 stig, líkt og ÍBV, en HK er í sjöunda sætinu með 9 stig.