Handknattleiksþjálfarinn Erlingur Birgir Richardsson hefur ekki rætt við hollenska handknattleikssambandið um nýjan samning. Þetta staðfesti hann í samtali við handbolta.is í dag.
Erlingur, sem er 49 ára gamall, verður samningslaus í júní en óvíst er hvað tekur við hjá þjálfaranum að samningnum loknum að því er fram kemur í frétt handbolta.is.
Þjálfarinn hefur stýrt hollenska landsliðinu frá árinu 2017 en liðið sló í gegn á nýliðnu Evrópumóti í Ungverjalandi og Slóvakíu á dögunum.
Hollendingar fóru alla leið í milliriðlakeppni mótsins og var þetta í fyrsta sinn sem karlalið Hollands kemst í milliriðla á stórmóti.
Holland mætir annaðhvort Sviss eða Portúgal í umspili í apríl um laust sæti á HM 2023 sem fram fer í Svíþjóð og Póllandi og mun Erlingur stýra liðinu í umspilsleikjunum tveimur.