„Við settum okkur mjög skýr markmið fyrir Evrópumótið í ár,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.
Guðmundur, sem er 61 árs gamall, tók við þjálfun íslenska liðsins í þriðja sinn á ferlinum í febrúar 2018.
Evrópumótið í Ungverjalandi og Slóvakíu var hans fjórða stórmót síðan hann tók aftur við liðinu en það hefur verið að ganga í gegnum ákveðna endurnýjun undanfarin ár.
„Nú er tíminn kominn sagði ég við strákana þegar ég hitti þá í nóvember þegar landsliðið kom saman til æfinga hér á landi,“ sagði Guðmundur.
„Leikmennirnir voru komnir í betri félagslið en þegar ég tók við þessu, þeir voru sterkari og reynslumeiri líka. Þetta var tíminn þar sem var hægt að gera meiri kröfur til okkar sem liðs,“ sagði Guðmundur.
Viðtalið við Guðmund í heild sinni má nálgast með því að smella hér en þátturinn er í opinn öllum.