ÍBV tapaði 34:23 fyrir spænska liðinu Costa del Sol Málaga í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Evrópubikars kvenna í handbolta á Spáni í dag.
Ljóst var fyrir leik að róðurinn yrði þungur en spænska liðið er ríkjandi meistari keppninnar. Tónninn var settur snemma leiks Málaga vann fljótt upp þægilegt forskot sem liðið lét aldrei af hendi.
Marija Jovanovic var markahæst í liði ÍBV með 8 mörk en Hrafnhildur Þrastardóttir kom næst með 5. Soledad López Jimenéz fór á kostum í liði Málaga en hún skoraði 12 mörk úr 12 skotum. Isabelle Dos Santos Medeiros kom næst með 7 mörk.
Seinni leikur liðanna fer fram á morgun og ljóst er að Eyjakonur þurfa að eiga algjöran stórleik ætli þær sér að standa í Spánverjunum.