Þýska liðið Magdeburg styrkti stöðu sína á toppi þýsku 1. deildarinnar í handbolta þegar liðið vann 30:20 sigur á N-Lübbecke.
Ómar Ingi Magnússon átti flottan leik fyrir Magdeburg en hann skoraði fimm mörk og lagði upp önnur sjö fyrir liðsfélaga sína. Gísli Þorgeir Kristjánsson lék einnig með Magdeburg í kvöld en hann skoraði eitt mark og lagði upp þrjú.
Magdeburg er á toppi deildarinnar með 34 stig. Liðið er með fjórum stigum meira en Kiel í öðru sæti og á einnig leik til góða.
Ýmir Örn Gíslason og samherjar hans í RN Löwen gerðu á sama tíma 26:26 jafntefli við Erlangen í sömu deild. Ýmir komst ekki á blað í leiknum en Löwen skoruðu síðustu þrjú mörk leiksins og náðu í ótrúlegt jafntefli.
RN Löwen er í 12. sæti deildarinnar með 14 stig eftir 18 leiki.