Bjarni markahæstur í jafntefli

Bjarni Ófeigur Valdimarsson lék vel í dag.
Bjarni Ófeigur Valdimarsson lék vel í dag. Ljósmynd/Skövde

Sænska liðið Skövde með Bjarna Ófeig Valdimarsson í fararbroddi gerði 26:26 jafntefli við SKA Minsk frá Hvíta-Rússlandi í fyrri leik 16-liða úrslita Evrópubikars karla í handbolta í dag. Leikið var í Skövde-höllinni í Svíþjóð.

Bjarni skoraði sex mörk en hann var markahæstur í liði Skövde ásamt Jack Thurin og Kristian Svensson. Bjarni varð þó fyrir því óláni að meiðast í leiknum og þurfti að fara af velli í síðari hálfleik. Ekki er vitað hversu alvarleg meiðslin eru.

Minsk byrjaði leikinn af miklum krafti og komst í 4:0 og 7:2 en Skövde vann sig aftur inn í leikinn áður en langt um leið. Staðan var jöfn, 11:11 í hálfleik og náðu liðin mest tveggja marka forystu í seinni hálfleik. Þegar um tvær mínútur voru eftir af leiknum leiddi Skövde með tveimur mörkum en Hvít-Rússarnir skoruðu tvö síðustu mörk leiksins og náðu í jafntefli.

Seinni leikur liðanna fer fram næsta sunnudag í Hvíta-Rússlandi og kemur þá í ljós hvort liðið fer áfram í 8-liða úrslitin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert