Erlingur: Frábært að sjá aðra stíga upp

Erlingur Richardsson á hliðarlínunni í dag.
Erlingur Richardsson á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, var sáttur með fyrsta leik liðsins eftir pásuna löngu en hann kom gegn Valsmönnum í Vestmannaeyjum í dag. Erlingur sem var staddur á EM í Ungverjalandi allan janúarmánuð gat fagnað með leikmönnum sínum í dag en liðið gerði 28 mörk gegn 26 frá Valsmönnum.

„Mér fannst vörnin nokkuð góð, sérstaklega í byrjun leiks þar sem við náðum að setja tóninn. Við héldum því út og markvarslan líka, heilt yfir í leiknum,“ sagði Erlingur um hvað skóp þennan sigur.

Valsmenn fengu mikið af hornafærum til að byrja með og voru hornamenn þeirra, þeir einu sem skoruðu meira en eitt mark í fyrri hálfleik.

„Við ræddum í hálfleiknum að reyna að loka fyrir þau færi, við reyndum að loka fyrir það í síðari hálfleik,“ sagði Erlingur en það tókst ágætlega hjá liðinu og þvingaði það Valsmenn í að sækja meira inn á miðju. Þar fengu Valsmenn mikið af vítaköstum og samtals níu gegn tveimur hjá ÍBV.

„Þeir fengu töluvert af vítaköstum, leikurinn þeirra er þannig, þeir eru með spræka stráka sem komast oft auðveldlega á milli stórra leikmanna, þeir gera það mjög vel. Við þurftum að bíða frekar lengi eftir okkar fyrsta vítakasti, miðað við þeirra, það er kannski munurinn á liðunum. 26 mörk fengin á sig er nokkuð gott,“ sagði Erlingur en Eyjamenn fengu sitt fyrsta vítakast eftir 45 mínútna leik. Munurinn á liðunum var mikið til sá að Eyjamenn sættu sig við að taka skot fyrir utan á meðan Valsmenn leituðu oft að betra færi.

Valsmenn komast aldrei yfir í leiknum og var það lykillinn að sigrinum, að þurfa aldrei að elta forskot gestanna?

„Það er alltaf betra að halda forystunni og þá þarf andstæðingurinn alltaf að finna lausnir og breyta hjá sér. Það getur þó verið taugatrekkjandi að reyna að halda forystunni, við gerðum það ágætlega, þrátt fyrir að vera stífir sóknarlega undir miðbik seinni hálfleiks. Við náðum að stilla upp í góðar taktíkar og fengum tvö góð mörk en að sama skapi fórum við illa með tómt mark tvisvar sem við hefðum getað nýtt aðeins betur,“ sagði Erlingur, en var hann hræddur um að það kæmi í bakið á hans mönnum?

„Það er alltaf þannig að þegar þú finnur að svona færi fara forgörðum. Maður hugsar hvort að þetta ætli að vera svona dagur, en það kom ekki að sök núna. Petar skoraði allavega eitt í tómt markið og Róbert eitt, þannig við náðum allavega í tvö mörk.“

Erlingur var án Kára Kristjáns Kristjánssonar, sem sat á bekknum allan leikinn og Dags Arnarssonar sem var fjarri góðu gamni. Hann var því ánægður að sjá aðra stíga upp.

„Það var frábært að sjá aðra stíga upp, við vorum heldur ekki með fullan hóp. Við eigum slatta af ungum leikmönnum sem hefðu getað verið á bekknum í dag, við ákváðum þó að gera þetta svona í dag. Þau eru næg verkefnin hjá öllum flokkunum okkar og margir leikir framundan eftir Covidið og pásurnar þar, við þurfum að nýta alla krafta á öllum sviðum.“

Dánjal Ragnarsson átti góðan leik fyrir ÍBV og steig upp í fjarveru Dags.

„Hann átti frábæran leik, Sigtryggur skoraði einnig níu, maður tók ekki alveg eftir fjöldanum þar en hann stjórnaði leiknum líka vel og setti upp stöður þar sem Dánjal gat nýtt, hann gerði nokkrum sinnum mjög vel 1 á 1. Þetta er strákur sem er búinn að æfa vel í þreksalnum síðustu þrjá mánuði og er orðinn sterkari líkamlega. Það er gaman að sjá afraksturinn af æfingunum hans.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert