„Við vorum góðir að mörgu leiti sóknarlega, en klúðrum rosalega mörgum dauðafærum. Þrjú víti og urmull af góðum færum og þar missum við þá frá okkur,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari karlaliðs Selfoss í handbolta eftir 30:27 tap á heimavelli gegn Haukum í kvöld.
„Við komum til baka á lokakaflanum en missum þá aftur frá okkur og þar erum við að gera aulaleg mistök. Við erum að fá á okkur allt of mikið af keimlíkum mörkum og ég hefði getað skipt um vörn aðeins fyrr. Ef og hefði... Það er samt margt fínt í leiknum, ágætur hraði og miðað við hraðann þá hefðum við átt að skora meira. Það sem tekur mann fyrst eftir leikinn er hvað við erum að fara með mikið af dauðafærum,“ segir Halldór Jóhann.
Selfyssingar hafa verið í brasi síðustu daga og í kvöld voru forföll í leikmannahópnum. Halldór var samt ánægður með standið á liðinu.
„Auðvitað er þetta búin að vera erfið vika, við erum búnir að vera með fáa leikmenn á æfingum, það er Covid og vesen, þannig að takturinn hefur ekki verið frábær. En mér fannst við vera tiltölulega ferskir í dag og ég var ánægður með margt sem við höfum verið að vinna í.“