KA lagði Stjörnuna í spennutrylli

Heimamenn fagna sigrinum í leikslok.
Heimamenn fagna sigrinum í leikslok. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA og Stjarnan mættust í Olís-deild karla í handbolta í dag. Var þetta fimmtándi leikur Stjörnunnar en sá fjórtándi hjá KA. Úr varð svakalegur spennu- og slagsmálaleikur þar sem litlu munaði að syði upp úr á tímabili. Eftir að jafnt hafði verið á öllum tölum lungann úr seinni hálfleik þá var það KA sem kreisti fram sigur 25:24. 

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, var mættur til að fylgjast með Stjörnumönnum og heimsækja liðið sem bræður hans, þeir Jóhannes og Patrekur, léku með fyrir margt löngu. Það verður ekki annað sagt en að hann hafi fengið meira en nóg fyrir peninginn, reyndar eins og allir aðrir áhorfendur. 

Fyrri hálfleikurinn var jafn og spennandi en nokkuð sveiflukenndur þar sem hvort lið tók sínar rispur. Annars einkenndi aragrúi mistaka hálfleikinn, jafnt hjá leikmönnum sem dómurum. Leikmenn töpuðu boltanum í gríð og erg en í einhverjum tilfellum var frekar harkalega brotið á þeim en ekkert dæmt. Þetta æsti menn töluvert og gerði leikinn harðari. Leikmenn fóru því ansi oft í refsingu. 

Stjarnan var ekki með neina markvörslu í fyrri hálfleiknum, tvö skot, en KA var með átta. Munaði töluvert um þetta en staðan í hálfleik var 15:13 fyrir KA. 

KA byrjaði seinni hálfleikinn tveimur mönnum færri og þeir misstu sinn besta mann meiddan af velli strax í fyrstu sókn Stjörnumanna. Nicholas Satchwell, sem hafði varið átta skot í fyrri hálfleiknum, fékk bylmingsskot í höfuðið og var snöggur að koma sér á bekkinn. Stjörnumenn voru fljótir að jafna leikinn og svo var jafnt á öllum tölum og fáránlega mikil spenna í leiknum, pústrar og alvöru barátta. 

Mjög lengi var staðan 23:23 og liðin bara vildu ekki skora og klúðruðu sóknum á víxl. Patrekur Stefánsson braut loks ísinn fyrir KA þegar rúm mínúta lifði leiks. Staðan var þá 24:23 og Stjörnumenn manni færri út leikinn. Bruno Bernat varði svo frá Stjörnumönnum og Óðinn Þór Ríkharðsson innsiglaði sigurinn þegar tíu sekúndur lifðu. Stjarnan átti svo síðasta orðið en lokatölur 25:24 eftir leik sem bauð upp á nánast allt. 

Bruno Bernat byrjaði seinni hálfleikinn herfilega í marki KA þegar hann fékk skot yfir sig en varði svo vel út seinni hálfleikinn og reið baggamuninn á lokakaflanum. Stjarnan fékk loks markvörslu þegar Sigurður Dan Óskarsson kom á vettvang eftir 41 mínútu. Hann tók sex skot, tvöfalt það sem forverar hans tveir vörðu í leiknum. 

Af útileikmönnum Stjörnunnar var Hafþór Már Vignisson baneitraður og Dagur Gautason einnig. Tandri Már Konráðsson og Brynjar Hólm Grétarsson bundu saman vörnina en lítið kom út úr Björgvini Hólmgeirssyni og Gunnari Steini Jónssyni. 

Leikmenn KA virtust ekki upp á sitt besta í sókninni en liðið tapaði fimmtán boltum í leiknum. Liðið spilaði síðast 17. desember og lék án Einars Rafns Eiðssonar en leikmenn voru með hjartað á réttum stað og skiluðu sigri með gríðarlegri baráttu og góðri skotnýtingu. KA hefur nú unnið fjóra leiki í röð í deildinni. 

KA fer í fjórtán stig með sigri sínum upp í sjöunda sætið. Stjarnan er enn í fimmta sætinu með sín átján stig. Liðin mætast aftur á miðvikudag í Mýrinni í Garðabæ í Coca-Cola bikarnum. Má fastlega gera ráð fyrir öðrum spennuleik.

Hafþór Vignisson leikmaður Stjörnunnar sækir á vörn KA í leiknum.
Hafþór Vignisson leikmaður Stjörnunnar sækir á vörn KA í leiknum. Ljósmynd/Þórir Tryggvason
Bræðurnir Patrekur, þjálfari Stjörnunnar og Guðni Th., Forseti Íslands í …
Bræðurnir Patrekur, þjálfari Stjörnunnar og Guðni Th., Forseti Íslands í KA-heimilinu í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason
KA 25:24 Stjarnan opna loka
60. mín. Bruno Bernat (KA) varði skot Kastar sér svo á eftir boltanum og nær honum við vítateigslínuna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert