Sverre Andreas Jakobsson einn þjálfara KA í Olísdeild karla í handbolta átti ánægjulegan dag í dag. Lið hans vann Stjörnuna í háspennuleik á Akureyri 25:24. Fyrir leik var Sverre heiðraður sérstaklega fyrir sitt framlag sem leikmaður KA ásamt Arnóri Atlasyni og Jóhannesi Bjarnasyni.
Sæll Sverre. Þetta var flottur dagur. Forsetinn mættur í KA-heimilið, þú færð heiðursnafnbót KA og svo sigur í kaupbæti.
„Þetta er búinn að vera skemmtilegur dagur. Það er gaman að því hvernig félagið manns, KA er að vinna þetta og heiðra ýmsa úr handboltanum með þessum hætti. Þetta er stór viðurkenning og ég er mjög þakklátur fyrir þennan gjörning. Að hafa forsetann til að fylgjast með var bara bónus“ sagði Sverre og skellti upp úr. „Ég held reyndar að hann hafi ekki komið út af þessu, ég tók því samt þannig.“
Ef við snúum okkur að leiknum þá var þetta háspennuleikur og það leit út eins og liðin ætluðu ekkert að skilja sig frá hvoru öðru. Þið hjugguð svo á hnútinn á ögurstundu og fögnuðuð sigri.
„Þetta er einn af þeim handboltaleikjum sem manni finnst vera konfekt fyrir handboltaáhugafólk, handboltakonfekt. Það var jafnt nánast allan leikinn og ekkert sem skilur á milli liðanna nema þá einhver pínkulítill vilji í lokin eða liðsheild, hvernig sem maður orðar þetta. Við erum bara voða stoltir af liðinu, hvernig við náðum að klára þetta, ekki síst síðustu tíu mínúturnar. Það hefur stundum vantað. Í dag var liðsheildin áþreifanleg og við höfum skynjað þetta í dálítinn tíma. Það er fátt sætara og fátt sem gefur leikmönnum meira en að ná svona sigri.“
Þið eruð búnir að vera ansi nánir í liðinu. Fóruð saman á EM í Búdapest á leiki Íslands og í æfingaferð. Tókuð svo pestina saman þegar þið komuð heim.
„Já við erum búnir að vara mjög samrýmdir og samstíga í bókstaflegri merkingu, allir í einangrun á sama tíma. Við erum ánægðir með þessa ferð og hún gerði okkur sterkari en ef við hefðum ekki farið eða ekki komist út. Við létum bara vaða í þessa ferð og erum bara bjartir. Þetta er fyrsti leikur eftir hlé en við erum að tengja saman sigurleiki. Þetta er gott veganesti.“
Þú skrifar þennan sigur þá aðallega á góða liðsheild og baráttu?
„Já og andlegu hliðina. Við náðum að halda kúlinu. Mér fannst við eiga að vera með stærra forskot í hálfleik. Við núllstilltum okkur í hálfleik, missum samt forskotið strax og markmanninn meiddan útaf. Við héldum bara sjó og Bruno kom klár inn í markið. Það er ekkert sjálfsagt og sterkt hjá honum að vera andlega innstilltur á leikinn. Við vorum líka án Einars Rafns og þurftum að aðlaga leik okkar á stuttum tíma. Til að vinna gegn svona mótlæti þá þarftu að hafa góða liðsheild.“
Svo er það bara leikur gegn Stjörnunni á miðvikudaginn. Nú verður leikið í Coca-Cola bikarnum á þeirra heimavelli. Það er sérstakt að taka tvo leiki gegn sama liði á svona stuttum tíma.
„Það er minni heimavinna. Þetta er önnur keppni og allir vilja fara í úrslitaleikina í Höllinni. Það er sérstakt og einstakt að vera með í bikarhelginni. Ég hef engar áhyggjur af því að við náum ekki að mótivera okkur fyrir þann leik.“
Þú hefur upplifað það að fara í Laugardalshöllina og vinna bikarinn. Þú veist hvað þarf til.
„Það er ekkert sjálfgefið að komast þangað á ferlinum og það þarf allt að ganga upp. Þú tekur það með þér það sem eftir er. Þarna eru minningarnar sem sitja eftir“ sagði Sverre að lokum.