Færeyski landsliðsmaðurinn Vilhelm Poulsen gengur til liðs við danska úrvalsdeildarliðið Lemvig frá Fram í vor. Fram greinir frá þessu á samfélagsmiðlum sínum í dag.
Poulsen er markahæsti leikmaður Olísdeildarinnar en hann kom til Fram árið 2020 ásamt landa sínum Rógva Dahl Christiansen. Ljóst er að þetta er mikill missir fyrir Safamýrarliðið.
Hjá Lemvig mun Vilhelm leika með íslenska landsliðmarkverðinum Daníel Frey Andréssyni en hann gengur til liðs við danska liðið á sama tíma.
Í tilkynningu Fram segir m.a.:
„Vilhelm hefur reynst okkur mikill happafengur enda er hann ekki bara frábær leikmaður heldur mikill liðsmaður og drengur góður. Við munum sakna hans úr Fram en fylgjumst með frama hans í boltanum enda er ég sannfærður um að hann á eftir að ná langt.“