Markvörður Hauka, Aron Rafn Eðvarðsson, var maður leiksins þegar Haukar unnu góðan útisigur á Selfyssingum í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Aron Rafn skellti í lás í seinni hálfleik en hann varði 24/1 skot í leiknum.
„Þetta var flott hjá okkur, liðsheildin var góð og mér fannst við vera „all-in“ allan tímann,“ sagði Aron Rafn í samtali við mbl.is og bar svo fyrir sig þekktri klisju:
„Þetta er leiðinleg klisja en vörn og markvarsla sigra stundum leiki. Í fyrri hálfleik kom ég með einhverjar tvær ömurlegar sendingar fram völlinn og við vorum með einhverja sjö, átta tæknifeila í fyrri hálfleik. Við töluðum um það í leikhléinu að dempa okkur aðeins niður og vinna okkur rólega inn í þetta. Og við gerðum það. Við gíruðum þetta aðeins niður og fækkuðum mistökunum. Þetta var jafn og spennandi leikur þangað til að við lokuðum á þá í upphafi seinni hálfleiks,“ sagði Aron Rafn sem var gjörsamlega frábær á þessum mikilvæga kafla.
„Mér fannst ég ekkert spes, sko... ef ég á að vera hreinskilinn. Ég varði mikið af bónusboltum, mikið af dauðafærum en það voru nokkrir boltar sem láku inn í fyrri hálfleik, sem ég hefði viljað taka,“ sagði markvörðurinn hógvær.
Þetta var fyrsti leikur Selfoss eftir jólafríið en Haukar mættu Stjörnunni á mánudag og unnu þar góðan sigur.
„Það er gott að taka tvo sigra í röð eftir hléið, á útivelli á móti sterkum liðum Stjörnunnar og Selfoss. Ég hef aldrei spilað leik í þessu húsi, það er góð stemning hérna og það breytir leiknum að fá áhorfendur aftur inn. Þú heyrir ekki bara ískrið í skónum og einhvern að snýta sér inni á vellinum,“ sagði Aron léttur.