Haukar upp að hlið FH á toppnum

Einar Sverrisson sækir að marki Hauka.
Einar Sverrisson sækir að marki Hauka. mbl.is/Unnur Karen

Hauk­ar unnu 30:27 sterkan útisig­ur á Sel­fyss­ing­um í Olís­deild karla í hand­bolta í kvöld. Með sigr­in­um fóru Hauk­ar upp að hlið FH í efstu sæt­um deild­ar­inn­ar en bæði Hafn­ar­fjarðarliðin eru nú með 24 stig. 

Það var mikið fjör á Selfossi í kvöld en leikurinn var fyrsti deildarleikur heimamanna í 60 daga og nú voru áhorfendur leyfilegir í óheyrilegu magni. Það voru 199 manns í húsinu.

Fyrri hálfleikurinn var jafn og spennandi, liðin skiptust á um að hafa forystuna og munurinn varð aldrei meiri en tvö mörk. Vilius Rasimas, markvörður Selfoss, var í miklu stuði og sá til þess að sínir menn væru inni í leiknum í leikhléi, 13:12 fyrir Selfyssingum.

Aron Rafn Eðvarðsson, markvörður Hauka, var maður leiksins í kvöld og frábær kafli hans í upphafi seinni hálfleiks lagði grunninn að sigrinum. Hann var vissulega með góða vörn fyrir framan sig en honum tókst að verja tíu skot á fyrstu tólf mínútum seinni hálfleiks, margar vörslurnar algjörlega frábærar, einn á móti einum. Í kjölfarið náðu Haukar fimm marka forskoti og þó að Selfoss næði að minnka muninn niður í eitt mark reyndust gestirnir sterkari þegar á reyndi og þeir unnu sanngjarnan sigur.

Ragnar Jóhannsson og Einar Sverrisson voru markahæstir Selfyssinga með 5 mörk hvor. Hjá Haukum virðist Ihor Kopyshinskyi passa virkilega vel inn í liðið en hann skoraði 5 mörk. Það gerðu líka Darri Aronsson, Brynjólfur Snær Brynjólfsson og Tjörvi Þorgeirsson. Sannarlega mikil breidd í Haukaliðinu.

Markverðirnir voru hins vegar menn kvöldsins. Vilius Rasimas kemur ferskur heim af EM og var með 19/2 skot varin í marki Selfoss og Aron Rafn varði 24/1 skot í marki Hauka.

Selfoss 27:30 Haukar opna loka
60. mín. Tjörvi Þorgeirsson (Haukar) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert