Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var ekki ánægður með sína menn eftir tveggja marka tap gegn ÍBV í Vestmannaeyjum í dag. Valsmenn komust aldrei yfir í leiknum sem þeir töpuðu á endanum 28:26.
„Skora úr færunum, það er fyrsta take-ið á þetta. Færanýtingin er mjög léleg, en Petar ver ágætlega í markinu ég tek það ekki af honum, hann er góður markmaður. Við þurfum að gera miklu betur þar, tölfræðin lýgur ekki, strax eftir leik eru þetta 10 til 20 góð færi sem við klárum ekki í leiknum. Við erum samt í brasi lungað úr leiknum, varnarlega erum við ekki í takt og þurfum að breyta um varnir sem gengu ekki nægilega vel,“ sagði Snorri spurður að því hvað Valsmenn hefðu getað gert betur í leiknum, en það stóð ekki á svörunum frá honum.
„Uppstilltur sóknarleikur 6 á 6 var líka erfiður fyrir okkur, við erum ekki með mikið af mörkum utan að velli, það gekk illa. 7 á 6 kom okkur inn í leikinn í báðum hálfleikjunum, það var svo sem möguleiki fyrir hendi að stela stigi, en ég er ekki viss um að það hefði verið sanngjarnt.“
Lykilmenn í liði Vals náðu sér ekki á strik fyrir utan en Magnús Óli Magnússon, Agnar Smári Jónsson og Róbert Aron Hoster voru samtals með 1 mark úr 12 skotum, Snorri vildi þó alls ekki skella sökinni á þá og sagði góða ástæðu fyrir því.
„Magnús Óli er að koma sér aftur af stað eftir veikindi, vissum alveg að þetta gæti gerst hjá honum. Aggi átti ekki sinn besta dag, en Robbi spilar ekki sóknina og ekki hægt að skrifa þetta markaleysi utan að velli á hann. Hann er ekki kominn á þann stað að spila sókn og klárar bara sína vörn, ég skrifa þetta ekkert á þá. Ég vil fá meira frá mínu liði, færanýtingin er ekki nógu góð hjá flestum í liðinu, varnarleikurinn var heldur ekki nægilega góður og ég ætla því ekkert að taka þá út fyrir sviga og benda á þá.“
Valsmenn sóttu mikið af hornafærum í fyrri hálfleik en í þeim síðari tókst Eyjamönnum að loka aðeins á þau og sóttu Valsmenn því mikið inn á miðju og fengu ófá vítaköst. Níu víti gegn tveimur heimamanna.
„Við vorum allavega að fá færi, hann varði vel, gerði okkur erfitt fyrir. Þegar þú færð færi og skorar ekki þá verður þetta alltaf þungt, við náðum samt að halda þessu í leik og misstum þá aldrei langt fram úr okkur. Við hefðum getað stolið þessu en við vorum ekki nægilega góðir í dag til þess, ég held að þetta sé verðskuldaður sigur hjá ÍBV.“
Valsmenn náðu aldrei að komast yfir eins og áður segir, en telur Snorri að með því hefði leikurinn geta sveiflast þeim í vil?
„Auðvitað þarftu að reyna að breyta leikjum og snúa þeim þér í vil, sérstaklega þegar þú ert að ströggla, það hefði verið gaman að setja ÍBV undir smá pressu en þeir gerðu vel og voru agaðir og öruggir. Markvarslan var heldur ekki eins góð hjá okkur, en heilt yfir fannst mér vanta fullt í okkar leik,“ sagði Snorri Steinn að lokum.
Valsmenn eru þó enn í 3. sæti deildarinnar með 20 stig, tveimur stigum á eftir toppliðum Hauka og FH.