Dagur Gautason, leikmaður Stjörnunnar í Olísdeildinni í handbolta, mætti á sinn gamla heimavöll síðdegis í dag þegar Stjarnan heimsótti KA. Úr varð mikill slagur þar sem KA marði eins marks sigur, 25:24. Dagur var öflugur í leiknum og skoraði átta mörk úr tíu skotum. Hann var hins vegar ekki sérlega ánægður í leikslok og hafði þetta að segja:
„Fyrsta tilfinningin er að þetta er hrikalega svekkjandi. Þegar leikjaniðurröðunin var klár fyrir mót þá var þetta leikurinn sem ég kíkti fyrst á og hlakkaði mest til að spila og vinna. Tilfinningin er því ógeðslega vond ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Ég á eftir að horfa á þennan leik aftur en mér fannst við spila töluvert undir getu, ekki síst undir lok leiksins. Við skoruðum varla síðasta kortérið.“ Stjarnan skoraði aðeins þrjú mörk úr tólf síðustu sóknum sínum, þar af eitt á lokasekúndunni þegar úrslitin voru ráðin. „Heildarframmistaða okkar var bara ekki nógu góð. KA var ekki heldur að spila sinn besta leik en líklega lá munurinn bara í stemmningunni hjá þeim. Mér fannst KA-menn grimmari þegar á þurfti að halda og það skilaði þeim sigri, því miður.“
Þetta er annar leikur ykkar eftir mótshléið en KA var að spila fyrsta leik sinn frá því í desember. Það er kannski eðlilegt að leikur liðanna sé ekki alveg upp á sitt besta.
„Það er eðlilegt að það sé eitthvað ryð í mönnum eftir langa pásu en þá er þetta orðin spurning um að sýna standard og vera klár þegar byrjað er á ný. Maður felur sig ekki á bak við það að þetta sé annar leikur eftir pásu. Þú þarft bara að sýna standard þegar það er flautað á.“
Þú ert gallharður KA-maður að upplagi en þrír liðsfélagar þínir núna eru allir uppaldir hjá erkifjendunum í Þór. Hvernig líður þér með það? Er það ekki bara mjög gott?
„Það er alltaf gott að hafa Akureyringa í liðinu þótt þeir séu aldir upp vitlausu megin við Glerá. Maður fyrirgefur það eftir að við erum orðnir liðsfélagar. Við höfum grafið stríðsöxina eftir mikla baráttu í öll árin í yngri flokkunum. Við allir vorum sérstaklega ákveðnir í að vinna þennan leik og erum því extra svekktir verandi norðanmenn.“
Þú fórst frægðarför til Búdapest, varst kallaður inn í landsliðshópinn á EM þegar menn fóru að greinast með Covid. Hvernig er sú ferð í minningunni?
„Heilt yfir var það góð ferð. Auðvitað vonaðist ég eftir því að spila og vissulega var það svekkjandi að vera ekki í hóp þegar til kastanna kom. Það var mikill heiður að vera kallaður inn í landsliðshópinn og mikil forréttindi. Ég geng nokkuð sáttur frá borði. Þetta var góð reynsla og forréttindi að vera hluti af hópnum. Ég er bara þakklátur og vonandi kemur kallið aftur seinna.“
Það er skammt stórra högga á milli. KA kemur í heimsókn til ykkar á miðvikudag í 16-liða úrslitum Coca-Cola bikarsins. Það þarf varla að gíra ykkur upp fyrir þann leik eftir úrslitin í dag.
„Ef við mætum ekki með blóð á tönnunum í þann leik þá veit ég ekki hvenær við ættum að gera það. Við leggjumst bara yfir leik okkar í dag og bætum okkur. Það kemur ekkert annað til greina en að vinna KA á miðvikudaginn“ sagði Dagur að lokum. Pilturinn er greinilega mjög líkur föður sínum, sem aldrei mætir jafn vel gíraður til leiks í Old-boys fótbolta KA á sunnudögum en eftir tapleiki helgina áður.