Fram er búið að tryggja sér sæti í fjórðungsúrslitum Coca Cola-bikars kvenna í handknattleik eftir að hafa unnið þægilegan 36:23-sigur á B-deildarliði Víkings úr Reykjavík í Víkinni í kvöld.
Fram er á toppnum í úrvalsdeildinni og Víkingur í fimmta sæti næstefstu deildar og því var fyrirfram búist við nokkuð auðveldu verkefni fyrir Framara.
Víkingar stóðu hins vegar vel í Frömurum og náðu til að mynda að jafna metin í 9:9 um miðbik fyrri hálfleiks. Eftir það tóku gestirnir hins vegar vel við sér og leiddu 17:12 í hálfleik.
Þrátt fyrir erfiða stöðu gegn sterku liði gáfust Víkingar ekki upp en þegar líða tók á síðari hálfleikinn reyndist gæðamunurinn of mikill og öruggur 13 marka sigur Fram staðreynd.