Frestað í Meistaradeildinni vegna ástandsins á landamærunum

Það er mikil spenna á landamærum Úkraínu og Rússlands.
Það er mikil spenna á landamærum Úkraínu og Rússlands. AFP

Leik Motor Zaporozhye og París SG í B-riðli Meistaradeildarinnar í handknattleik hefur verið frestað vegna ástandsins á landamærum Úkraínu og Rússlands.

Þetta kom fram í tilkynningu sem EHF, evrópska handknattleikssambandið, sendi frá sér í dag, en til stóð að leikurinn færi fram á fimmtudaginn í Zaporizhzhia í Úkraínu.

Leiknum hefur ekki verið fundinn nýr leiktími né leikstaður og svo gæti farið að Motor leiki ekki fleiri heimaleiki í Meistaradeildinni á tímabilinu.

Um 100.000 rússneskir hermenn voru sendir að landamærum Úkraínu á dögunum þar sem þeir hafa stundað heræfingar undanfarna daga, ásamt hermönnum hvít-rússneska hersins.

Motor er með 8 stig í sjötta sæti B-riðils en efstu sex lið riðilsins komast áfram í útsláttakeppnina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert