Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson stóðu fyrir sínu hjá þýska liðinu Magdeburg þegar liðið vann afskaplega öruggan sigur á Gorenje Velenje frá Slóveníu í Evrópudeildinni í handknattleik karla í kvöld.
Báðir skoruðu þeir þrjú mörk og Ómar Ingi bætti við einni stoðsendingu í 34:24-sigri í C-riðlinum.
Í sama riðli fóru Kristján Örn Kristjánsson og félagar hans í franska liðinu Aix í heimsókn til Króatíu þar sem þeir mættu heimamönnum í Nexe.
Kristján Örn skoraði tvö mörk þegar Aix mátti sætta sig við 29:33-tap.
Magdeburg er eftir sigurinn sinn langefstir í riðlinum með 13 stig eftir sjö leiki en Aix er á botninum með aðeins eitt stig eftir jafnmarga leiki.
Viktor Gísli Hallgrímsson kom þá lítið við sögu hjá danska liðinu GOG þegar liðið vann nauman 27:26-sigur á Medvedi frá Rússlandi í B-riðlinum. Hann fékk eitt skot á sig en varði það ekki.
GOG er á toppi B-riðilsins.