Danska liðið Aalborg er komið í efsta sæti A-riðils Meistaradeildar karla í handknattleik eftir öruggan útisigur á Meshkov Brest í Hvíta-Rússlandi í kvöld.
Aron Pálmarsson gat ekki leikið með Aalborg í kvöld vegna meiðsla og fleiri sterkir leikmenn voru fjarri góðu gamni en danska liðið innbyrti þó sigur, 33:29. Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Aalborg sem nú er komið með 16 stig á toppnum.
Montpellier frá Frakklandi er líka með 16 stig en tapaði á heimavelli gegn Vardar Skopje frá Norður-Makedóníu í kvöld, 25:28. Ólafur Guðmundsson gat ekki leikið með Montpellier vegna meiðsla.
Pick Szeged er með 14 stig og Kiel 13 og bæði lið eiga leik til góða á tvö efstu liðin. Það er því hörð keppni framundan í þremur síðustu umferðnum um tvö efstu sætin en tvö lið fara beint í átta liða úrslit á meðan næstu fjögur lið riðilsins fara í fyrstu umferð útsláttarkeppninnar.