Handboltamaðurinn Aron Dagur Pálsson er genginn til liðs við Noregsmeistarana Elverum og kemur til þeirra frá sænska úrvalsdeildarliðinu Guif.
Aron hefur samið við Elverum um að leika með liðinu út þetta keppnistímabil en ásamt því að vera í hefðbundinni baráttu um norska meistaratitilinn á liðið etir fjóra leiki í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu og á góða möguleika á að komast í útsláttarkeppnina. Annað kvöld á liðið sannkallaðan stórleik á heimavelli gegn þýska liðinu Kiel.
Í norsku úrvalsdeildinni hefur Elverum unnið alla 19 leiki sína og er með níu stiga forskot á Drammen þegar liðið á eftir sjö leiki í úrvalsdeildinni. Eftir það tekur við úrslitakeppni um meistaratitilinn.
Meðal samherja Arons hjá Elverum er Orri Freyr Þorkelsson, landsliðsmaður í handknattleik, sem lék með íslenska landsliðinu á EM í Búdapest í síðasta mánuði.
Aron, sem er 25 ára gamall, hefur áður leikið með Alingsås í Svíþjóð, Stjörnunni og Gróttu.