Bikarsigur KA í Garðabænum

Stjörnumaðurinn Hafþór Már Vignisson reynir skot að marki KA í …
Stjörnumaðurinn Hafþór Már Vignisson reynir skot að marki KA í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

KA er komið í átta liða úrslitin í bikarkeppni karla í handknattleik eftir góðan útisigur á Stjörnunni í Garðabæ í kvöld, 27:25.

Eftir jafnan fyrri hálfleik komst Stjarnan í 13:9 skömmu fyrir hlé en KA lagaði stöðuna í 13:11 áður en flautað var til hálfleiks. Markverðirnir Arnór Freyr Stefánsson hjá Stjörnunni og Bruno Bernat hjá KA voru í stórum hlutverkum í sínum liðum.

Þrátt fyrir að Stjarnan skoraði fyrsta mark síðari hálfleiks var KA búið að jafna í 14:14 strax á fjórðu mínútu og komst yfir í fyrsta sinn í kjölfarið, 17:15. Stjarnan jafnaði fljótlega og KA missti Patrek Stefánsson af velli með rautt spjald fyrir að hrinda mótherja um miðjan seinni hálfleikinn.

KA-menn gáfu sig ekki og voru yfir, 22:20, þegar tíu mínútur voru eftir og síðan munaði einu og tveimur mörkum, þeim í hag. Allan Nordberg kom þeim í 26:24 þegar tvær mínútur voru eftir og aftur í 27:24 í næstu sókn. Bruno Bernat varði frá Degi Gautasyni og þar með voru úrslitin ráðin. Eitt mark í blálokin breytti engu fyrir Stjörnuna.

Patrekur Stefánsson skoraði 6 mörk fyrir KA, Ólafur Gústafsson 4, Arnar Freyr Ársælsson, Arnór Ísak Haddsson og Allan Nordberg 3 hver. Bruno Bernat varði 18 skot.

Tandri Már Konráðsson og Björgvin Hólmgeirsson skoruðu 6 mörk hvor  fyrir Stjörnuna og Dagur Gautason 5.

KA leikur við Gróttu eða Hauka í átta liða úrslitunum en viðureign þeirra hefst klukkan 20 á Seltjarnarnesi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert