Stefán Darri Þórsson fyrirliði karlaliðs Fram hefur samið að nýju við handknattleiksdeild Fram um að spila með liðinu til ársins 2025, eða næstu þrjú keppnistímabil.
„Stefán Darri er ósérhlífinn og gríðarlega duglegur leikmaður sem fer fyrir okkar liði. Hann er blár í gegn og við í Fram erum þakklát fyrir að hafa hann í okkar röðum. Hann er fyrirmynd fyrir okkar yngri iðkendur og umfram allt frábær handboltamaður,“ segir Bjarni Kristinn Eysteinsson formaður á heimasíðu félagsins.
Stefán Darri er 27 ára gamall og hefur leikið með Fram mestallan ferilinn en var um þriggja ára skeið með Stjörnunni og spænska liðinu Alcobendas áður en hann sneri aftur í Safamýrina sumarið 2019.