Haukar unnu og fara til Akureyrar

Guðmundur Bragi Ástþórsson sneri aftur til Hauka frá Aftureldingu í …
Guðmundur Bragi Ástþórsson sneri aftur til Hauka frá Aftureldingu í janúar og hann skoraði 10 mörk og átti 9 stoðsendingar í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Haukar eru komnir í átta liða úrslitin í bikarkeppni karla í handknattleik, Coca-Cola-bikarnum, eftir sigur gegn Gróttu á Seltjarnarnesi í kvöld.

Haukar sigruðu 30:24 eftir að hafa lent í miklu basli með Seltirningana framan af leiknum en Grótta komst í 9:4. Haukar náðu að snúa blaðinu við með góðum spretti á lokakafla fyrri hálfleiks og voru yfir að honum loknum, 12:11.

Í seinni hálfleik var jafnræði fram undir miðjan síðari hálfleik en þá breyttu Haukar stðunni úr 20:19 í 24:19 og voru ekki í vandræðum eftir það.

Guðmundur Bragi Ástþórsson átti stórleik með Haukum en hann skoraði 10 mörk og átti 9 stoðsendingar. Geir Guðmundsson kom næstur með 6 mörk.

Lúðvík Thorberg Bergmann var markahæstur Gróttumanna með 7 mörk og Birgir Steinn Jónsson skoraði fimm.

Haukar fara nú til Akureyrar í átta liða úrslitunum og leika þar við KA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert