Tíu íslensk mörk og sigur hjá Gummersbach

Tumi Steinn Rúnarsson var í sigurliði með Coburg í kvöld.
Tumi Steinn Rúnarsson var í sigurliði með Coburg í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Þrír íslenskir leikmenn skoruðu samtals tíu mörk þegar Emsdetten og Coburg mættust í þýsku B-deildinni í handknattleik í kvöld.

Tumi Steinn Rúnarsson var í sigurliði og skoraði tvö mörk fyrir Coburg sem vann góðan útisigur, 29:27. Anton Rúnarsson skoraði 5 mörk fyrir Emsdetten og Örn Vésteinsson Österberg 3 en Örn er nýkomin til liðsins frá Nötteröy í Noregi.

Coburg er í 14. sæti af 20 liðum með 16 stig úr 19 leikjum en Emsdetten er í 16. sæti með 15 stig úr 20 leikjum. Liðin höfðu því sætaskipti í kvöld.

Guðjón Valur Sigurðsson og hans menn í Gummersbach náðu tveggja stiga forystu í deildinni með því að sigra Hagen á heimavelli, 30:26. Elliði Snær Vignisson skoraði ekki fyrir Gummersbach en Hákon Daði Styrmisson leikur ekki meira á þessu tímabili vegna meiðsla. Gummersbach er með 32 stig á toppnum, Nordhorn 30 og Hüttenberg 26 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert