Bjarki á leiðinni til Veszprém

Bjarki Már Elísson í leik með íslenska landsliðinu á EM …
Bjarki Már Elísson í leik með íslenska landsliðinu á EM í Búdapest í janúar. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Bjarki Már Elísson landsliðsmaður í handknattleik er á leið til ungverska stórliðsins Veszprém fyrir næsta keppnistímabil.

Vísir greinir frá þessu í dag og segir að Bjarki hafi þegar skrifað undir tveggja ára samning við Ungverjana sem hafa verið í fremstu röð í Evrópu um árabil og tvisvar unnið Evrópukeppni bikarhafa, ásamt því að hafa oft náð langt í Meistaradeild Evrópu en þar hefur það fjórum sinnum tapað úrslitaleik keppninnar. Aron Pálmarsson lék með liðinu á árunum 2015 til 2017.

Bjarki hefur undanfarin ár leikið með Lemgo og varð markakóngur þýsku 1. deildarinnar 2019-20. Hann er fjórði markahæsti leikmaður deildarinnar á þessu tímabili, á eftir Niclas Ekberg, Hans Lindberg og Ómari Inga Magnússyni.

Hvorki Veszprém né Lemgo hafa staðfest væntanleg félagaskipti Bjarka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert