„Ég gæti ekki verið sáttari“

Bjarki Már Elísson skorar eftirminilegt mark gegn Ungverjum á EM …
Bjarki Már Elísson skorar eftirminilegt mark gegn Ungverjum á EM í janúar þar sem hann óð einn á móti vörn Ungverja eftir að hafa tekið hraða miðju. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Bjarki Már Elísson, landsliðsmaður í handknattleik, er hæstánægður með þá ákvörðun að semja við ungverska stórliðið Veszprém. 

Mbl.is náði sambandi við Bjarka nú undir kvöld en í dag var tilkynnt  að Bjarki muni hafa félagaskipti frá Lemgo til Veszprém næsta sumar. 

„Ég gæti ekki verið sáttari. Veszprém passar algerlega við það sem ég var að leitast eftir. Þetta er eitt af stærstu liðum í heiminum og er lið sem vill alltaf berjast um að vinna Meistaradeildina. Það er mikill léttir að vera búinn að ganga frá þessum málum,“ sagði Bjarki sem gerir tveggja ára samning við ungverska liðið. 

Bjarki segir að skömmu eftir EM hafi hann vitað fyrsta af áhuga Veszprém. Bjarki segir að Veszprém hafi viljað fá sig strax til liðs við sig en félagið hafi ekki náð samkomulagi við Lemgo um að kaupa Bjarka. 

Bjarki Már í hávörn gegn Ungverjum á EM.
Bjarki Már í hávörn gegn Ungverjum á EM. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Bjarki tók þá ákvörðun fyrr í vetur að næsta sumar væri góður tímapunktur fyrir sig að breyta til eftir góð ár hjá Lemgo þar sem hann hefur verið á meðal mestu markaskorara í Þýskalandi og varð bikarmeistari með liðinu. Bjarki hefur auk þess verið lengi í Þýskalandi. Áður en EM fór fram í janúar varð hann var við áhuga einhverra liða en ekkert sem var nógu spennandi til þess að hann færi að binda sig áður en keppnin fór fram.

Ísland vann Ungverjaland í þriðja leiknum á EM og Bjarki telur mögulegt að frammistaðan í þeim leik hafi kynt undir áhuga hjá forráðamönnum Veszprém. Bjarki skoraði 9 mörk og var markahæstur í íslenska liðinu. 

„Mér finnst líklegt að þeir hafi tekið sérstaklega eftir mér í leiknum gegn Ungverjum þar sem mér gekk mjög vel. Kannski hefur það hjálpað eitthvað til. Mót eins og EM og HM eru mjög góðir gluggar til að sýna sig. Það var ekki meðvituð ákvörðun að fara á EM til að ná í góðan samning einhvers staðar. Það eina sem maður pælir í er að standa sig fyrir íslenska landsliðið,“ sagði Bjarki en spurður út í hvort hann hafi fengið mörg formleg tilboð þá segir hann svo ekki vera. 

„Ég fékk tilboð um að vera áfram hjá Lemgo. Það var eiginlega eina formlega tilboðið sem ég fékk fyrir utan tilboðið frá Veszprém. Það voru fleiri lið sem sýndu mér áhuga. Ég ýtti þeim ekki frá mér en beið með það eins lengi og ég gat. Með fullri virðingu fyrir þeim liðum þá voru það ekki félög sem voru jafn spennandi og Veszprém. Mig langaði að taka skref í líkingu við þetta og það gekk eftir,“ sagði Bjarki Már Elísson í samtali við mbl.is í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert