Handknattleikskonan Sandra Erlingsdóttir mun ganga til liðs við Metzingen sem leikur í 1. deild Þýskalands í sumar. Þetta tilkynnti félagið á heimasíðu sinni í dag.
Sandra, sem er 23 ára, hefur undanfarin tvö tímabil leikið með Aalborg í dönsku B-deildinni þar sem hún hefur verið í stóru hlutverki.
Hún gekk til liðs við danska félagið frá Val árið 2020 en hún hefur einnig leikið ÍBV og Füchse Berlín í Þýskalandi á ferlinum.
Sandra varð Íslands- og bikarmeistari með Val árið 2019 og þá hefur hún verið fastamaður í íslenska landsliðinu frá árinu 2018.
Metzingen er í þriðja sæti þýsku 1. deildarinnar með 20 stig, 8 stigum minna en topplið Bietigheim, og tveimur stigum minna en Dortmund sem er í öðru sætinu. Þriðja sætið gefur keppnisrétt í Evrópudeildinni á næsta tímabili.