Ungverska stórliðið Veszprém hefur staðfest að það hafi samið við íslenska landsliðsmanninn Bjarka Má Elísson um að leika með því næstu tvö keppnistímabil, frá og með næsta sumri.
Bjarki kemur til ungverska félagsins frá Lemgo þar sem hann lýkur sínu þriðja keppnistímabili í vor. Hann fór frá HK í atvinnumennsku í Þýskalandi árið 2013 og lék þar með Eisenach í tvö ár og síðan með Füchse Berlín í fjögur ár áður en hann gekk til liðs við Lemgo.
Með Lemgo hefur Bjarki orðið þýskur bikarmeistari ásamt því að verða markakóngur þýsku 1. deildarinnar 2019-20, en hann er fjórði markahæsti leikmaður deildarinnar á yfirstandandi keppnistímabili.
Veszprém hefur 26 sinnum orðið ungverskur meistari og tvisvar unnið Evrópukeppni bikarhafa, ásamt því að hafa oft náð langt í Meistaradeild Evrópu en þar hefur liðið fjórum sinnum tapað úrslitaleik keppninnar. Aron Pálmarsson lék með liðinu á árunum 2015 til 2017.
„Veszprém er eitt af stærstu félögum heims og ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um þegar ég heyrði að þeir hefðu áhuga á mér. Ég hef alltaf stefnt að því að spila í Meistaradeildinni og með því að ganga til liðs við Veszprém er draumur að rætast," segir Bjarki m.a. í viðtali á heimasíðu félagsins.