Aron bar Veszprém vel söguna

Bjarki Már Elísson skorar gegn Noregi á EM í janúar.
Bjarki Már Elísson skorar gegn Noregi á EM í janúar. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Tilkynnt var í gær að Bjarki Már Elísson, landsliðsmaður í handknattleik, hafi samið við ungverska stórliðið Veszprém og gengur til liðs við félagið frá Lemgo í sumar. 

Veszprém hefur lengi verið í fremstu röð í heimalandinu en einnig í Evrópu á þessari öld. Nokkrir af þekktustu leikmönnum Ungverja hafa leikið með liðinu eins og Janos Gyurka, Jozsef Eles, Laszlo Nagy og Roland Mikler svo einhverjir séu nefndir. 

Laszlo Nagy var lykilmaður hjá Veszprém sem leikmaður og átti …
Laszlo Nagy var lykilmaður hjá Veszprém sem leikmaður og átti nú sem starfsmaður þátt í að fá Bjarka til félagsins. Reuters

Margir heimsklassa leikmenn frá öðrum þjóðum hafa spilað með Veszprém. Til að stikla á stóru má nefna Zlatko Sarasevic, Arpad Sterbik, Carlos Perez, Mirza Dzomba, Bjarte Myrhol og Kiril Lazarov. En einungis einn Íslendingurinn hefur til þessa leikið með liðinu og það er Aron Pálmarsson sem var hjá Veszprém 2015-2017. 

„Ætlarðu að fara þangað? Já ég held að það gæti …
„Ætlarðu að fara þangað? Já ég held að það gæti verið góður kostur." Aron Pálmarsson í Búdapest á EM í janúar. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Nú vill svo til að Aron og Bjarki Már eru jafnaldrar og herbergisfélagar í landsliðinu. Mbl.is spurði Bjarka hvort hann hefði ekki fengið álit herbergisfélagans á félaginu og hvernig sé að spila fyrir liðið? 

„Já ég gerði það. En ég gerði það reyndar ekki strax því ég vildi ekki vera að heyra í honum út af þessu ef ekkert tilboð kæmi. Þegar ferlið var komið mjög langt þá heyrði ég í Aroni. Honum leist mjög vel á þetta og bar þeim mjög vel söguna. Bæði fólkinu hjá félaginu og aðstöðunni hjá félaginu. Eftir það samtal var ég enn sannfærðari að þetta væri lið sem ég vildi spila með,“ sagði Bjarki Már þegar mbl.is ræddi við hann í gær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert