Íslandsmeistararnir í undanúrslit

Rut Jónsdóttir sækir að HK-ingum á Akureyri í kvöld.
Rut Jónsdóttir sækir að HK-ingum á Akureyri í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA/Þór og HK mættust í bikarkeppni HSÍ, Coca-Cola bikar kvenna í dag. Það er skemmst frá því að segja að KA/Þór tók völdin í upphafi leiks og hélt HK í hæfilegri fjarlægð út leikinn. Lokatölur urðu 30:20 og er KA/Þór því komið í undanúrslit bikarkeppninnar þriðja árið í röð. 

HK-ingar byrjuðu leikinn illa og KA/Þór komst þar með í bílstjórasætið. Eftir upphafskaflann var staðan 7:3 fyrir KA/Þór. Hélst sá munur síðan og stóð 15:11 í hálfleik. Varnarleikur HK var sterkur en markvarslan hins vegar lítil. Í sókninni gekk HK ágætlega með langskotin en tapaðir boltar voru of margir. KA/Þór fór illa með mörg færi í fyrri hálfleik og tapaði einnig mörgum boltum. Rut Jónsdóttir var einna sprækust og var komin með fimm mörk í hálfleik. 

HK byrjaði seinni hálfleikinn vel og minnkaði muninn strax í tvö mörk, 15:13. Eftir það þá bara jókst munurinn á liðunum. KA/Þór komst í sjö marka forskot, 22:15 og HK tók leikhlé. Það skilaði litlu og munurinn jókst enn þar sem sókn HK var afar ráðleysisleg. Tapaðir boltar komu í kippum og KA/Þór gekk á lagið. Um miðbik hálfleiksins fékk Elna Ólöf Guðjónsdóttir rauða spjaldið fyrir að brjóta á Rut Jónsdóttur. Þá var orðið ljóst að KA/Þór myndi vinna og aðeins spurning um lokatölur.  

Matea Lonac varði vel í marki KA/Þórs á meðan hennar naut við en hún fékk skot í höfuðið um miðjan fyrri hálfleik. Sunna Guðrún Pétursdóttir tók svo við keflinu og varði m.a. tvö víti að tólf vörðum skotum. Eftir brösulega byrjun í leiknum fann Rakel Sara Elvarsdóttir markið og skoraði hún mest heimakvenna,  sjö mörk. 

Í liði HK var Jóhanna Margrét Sigurðardóttir lang öflugust. Hún skoraði sex mörk. Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín kom öflug inn í lokakafla leiksins og skilaði þremur góðum mörkum.  

KA/Þór 30:20 HK opna loka
60. mín. Leik lokið Öruggur og sanngjarn sigur KA/Þórs.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert