KA og Haukar spiluðu kl. 16:00 í dag í KA-heimilinu á Akureyri. Leikurinn var í 8-liða úrslitum bikarkeppni HSÍ, Coca-Cola bikarnum. Eftir mikla spennu var það KA sem fór áfram í undanúrslit.
Stemningin í húsinu var svakaleg og allan leikinn voru Akureyringar hvattir áfram af öflugu stuðningsliði og gulum vegg áhorfenda. Blés það heimamönnum baráttuanda og þrek í brjóst og þeir voru töluvert betri aðilinn í fyrri hálfleiknum. KA náði mest sex marka forskoti í upphafi seinni hálfleiks en eftir það var spenna í leiknum og Haukar ávallt á hælum KA-manna. KA hélt út og fagnaði 28:26-sigri.
Fyrstu mínúturnar skiptust liðin á að skora en smám saman fór vörn KA að þéttast og Bruno Bernat var sem andsetinn í marki KA. Hann varði sjö skot á fyrstu tíu mínútunum og bætti svo við vörslum fram að hálfleik. Haukarnir voru bara ekki að finna nógu góð færi og það nýtti Bruno sér. Hann varði 15 skot í fyrri hálfleik og þar af var eina víti Hauka í hálfleiknum.
KA komst í 6:4 og þá tóku Haukar leikhlé. Skömmu eftir það var orðið jafnt 7:7. Þá hrökk KA í gang fyrir alvöru og norðanmenn skoruðu fjögur næstu mörk. Í stöðunni 11:7 tóku Haukar annað leikhlé og stöðvuðu taktinn hjá KA. Fram að hálfleik skiptust liðin á að skora en KA leiddi 15:11 í hálfleik.
KA komst strax í 18:12 í upphafi seinni hálfleiks og virtust ætla að knésetja Haukana. Það gerðist auðvitað ekki þar sem Aron Rafn Eðvarsson fór að verja mikið í marki Haukanna. Staðan varð 18:15 og svo 19:17. KA var í mesta basli og komst ekkert áleiðis gegn þéttri vörn Hauka. Aðeins markvarsla Bruno Bernat hélt KA í hæfilegri fjarlægð. KA komst í 22:18 og Haukar tóku síðasta leikhlé sitt. Þá voru þrettán mínútur eftir. Síðan var barist til síðasta blóðdropa og Haukarnir smám saman nöguðu forskotið niður. KA hélt þó leikinn út og innsiglaði Óðinn Þór Ríkharðsson sigurinn með marki úr vítakasti þegar fimmtán sekúndur voru eftir. KA vann leikinn 28:26 og fögnuðu norðanmenn ógurlega í leikslok.
Bruno Bernat varði 22 skot í leiknum en Aron Rafn tólf í Haukamarkinu. Óðinn Þór var langmarkahæstur á vellinum með tíu mörk. Allan Norðberg var með sex mörk. Hann var sérlega drjúgur undir lok leiksins. Hjá Haukum voru Ihor Kopyskynskyi og Darri Aronsson með fimm mörk hvor.
Haukar eru þar með úr leik og fá ekki að berjast um Bikarmeistaratitilinn á eigin heimavelli eftir þrjár vikur. KA hefur nú rutt tveimur stórum hindrunum úr vegi á fimm dögum og liðið fer í undanúrslit bikarkeppninnar í fyrsta skipti í háa herrans tíð.