Aldís Ásta Heimisdóttir var í eldlínunni í dag þegar KA/Þór vann HK 30:20 í átta liða úrslitum bikarkeppni HSÍ, Coca-Cola bikarnum. KA/Þór er komið í undanúrslit þriðja árið í röð en tvö síðustu ár fór liðið í úrslitaleikinn gegn Fram. Lið KA/Þór er ríkjandi bikarmeistari og er mikil tilhlökkun í Aldísi Ástu að berjast enn á ný um bikarinn.
Þetta var góður og öruggur sigur hjá ykkur.
„Það er draumur að fá að spila alltaf í Final-4 og bara geggjað. Við sýndum það í dag að okkur langaði áfram. Við erum búnar að vera í smá lægð en nú er þetta að smella aftur og liðsheildin er mjög góð. Mér finnst þetta vera alveg að koma aftur.“
Þið virðist komnar á svipað ról og fyrir ári þegar þið nánast unnuð hvern einasta leik. Það er ekki sjálfgefið og liðið þarf að halda sjó og halda haus og passa að fara ekki fram úr sér.
„Við munum alls ekki gera það. Þetta er bara gaman svona og við viljum hafa það þannig. Það er langskemmtilegast. Við ætlum að halda áfram að spila svona og vera alvöru liðsheild.“
Þú minntist á Final-4 áðan og þið kynntust því fyrst fyrir tveimur árum að spila alvöru úrslitaleik. Síðan þá hafið þið bara verið í öllum úrslitaleikjum.
„Já það er bara geggjað að við séum í þeim leikjum. Ég er ekki enn þá búin að venjast því. Það er alltaf jafn gaman og mikil forréttindi að vera í þeim. Ég hlakka mjög mikið til að spila í Final-4.“
En leikurinn í dag. HK var að elta ykkur fram í byrjun seinni hálfleiks þegar þið hreinlega stunguð þær af.
„Við vildum hrista þær af okkur og keyra á þær í seinni hálfleiknum. Við áttum alveg innistæðu eftir fyrri hálfleikinn. Við gerðum það bara, erum í mjög góðu formi og ættum að geta keyrt á hin liðin“ sagði Aldís Ásta að lokum, hæstánægð með að vera komin áfram í bikarkeppninni.