Selfoss sló ÍBV úr leik

Ragnar Jóhannsson var markahæstur Selfyssinga í dag með sjö mörk.
Ragnar Jóhannsson var markahæstur Selfyssinga í dag með sjö mörk. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ragnar Jóhannsson var markahæstur Selfyssinga þegar liðið sló ÍBV úr leik í 8-liða úrslitum bikarkeppni karla í handknattleik, Coca-cola-bikarnum, í Set-höllinni á Selfossi í dag.

Leiknum lauk með 33:28-sigri Selfyssinga en Ragnar gerði sér lítið fyrir og skoraði sjö mörk í leiknum.

Selfyssingar náðu mest fjögurra marka forskoti í fyrri hálfleik, 11:7, og leiddu með þremur mörkum í hálfleik, 15:12.

Selfoss náði mest sjö marka forskoti í síðari hálfleik, 22:15, en Eyjamönnum tókst að minnka forskot Selfyssinga í tvö mörk, 27:29, þegar þrjár mínútur voru til leiksloka.

Selfyssingar voru hins vegar sterkari aðilinn á lokamínútunum og fögnuðu öruggum sigri í leikslok.

Vilius Rasimas varði fimmtán skot í markinu og var með 36% markvörslu og þá skoruðu þeir Einar Sverrisson og Hergeir Grímsson sex mörk hvor fyrri Selfoss.

Theodór Sigurbjörnsson, Kári Kristján Kristjánsson og Dagur Arnarsson voru markahæstir í liði ÍBV með fjögur mörk hvor.

Úrslitahelgin fer fram dagana 10.-12. mars að Ásvöllum í Hafnarfirði en ásamt Selfossi hafa KA og Valur einnig tryggt sér sæti í undanúrslitum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert