Fyrirliði KA í handbolta, Jón Heiðar Sigurðsson, var manna kátastur eftir að KA hafði lagt Hauka að velli í Coca-Cola bikar karla í dag. KA kom sér þar með í undanúrslit keppninnar í fyrsta skipti í háa herrans tíð. Eftir tiltölulega slakt gengi framan af í vetur þá hefur KA nú unnið sex leiki í röð í deild og bikar.
Jón þið hafið verið á góðri siglingu eftir slappt gengi fram í desember.
„Já heldur betur. Við erum búnir að vera að vinna í mörgum hlutum og það urðu miklar mannabreytingar hjá okkur. Það hefur tekið tíma að spila liðið saman. Maður finnur það núna. Það er djöfulsins liðsheild og gangur í þessu hjá okkur. Við erum allir komnir á sömu blaðsíðu.“
Þetta er stór áfangi fyrir KA. Það er langt síðan KA var í undanúrslitum í bikar.
„Það vita allir að KA er stórveldi í handbolta. Við erum bara að reyna að koma okkur á þann stall sem við teljum að KA eigi að vera. Þetta var markmið okkar og við sættum okkur ekkert bara við það að mæta í undanúrslitin. Við ætlum að fara alla leið. Þetta er bara hluti að þessu. Hluti af því að vera í KA ætti að vera að komast í alvöru leiki um titla.“
Liðið hjá ykkur hefur orðið fyrir skakkaföllum síðustu daga. Einar Rafn meiddist og síðan Nicholas Satchwell markvörður. Stefán Guðnason hefur verið munstraður í markið á ný eftir afar langt hlé. Þá sannast hið fornkveðna að maður kemur í manns stað.
„Þetta er náttúrulega eins leiðinlegur frasi og hægt er en hann á algjörlega við núna. Það er örugglega ekkert lið á landinu sem er betur sett með markmenn en við. Við erum búnir að hafa sjö til níu markmenn á æfingum í vetur. Þeir voru fjórir í æfingaferðinni til Ungverjalands þar sem Nicholas var ekki einu sinni með. Við erum því vel settir. Uxinn okkar, Stefán Guðnason, hefur ekki tapað leik í KA heimilinu í fimmtán ár og því er gott að fá hann í hópinn. Svo vonum við að Einsi jafni sig sem fyrst og Nicholas verður vonandi með í næsta leik.“
Eins og þú minntist á áðan þá er KA að byggja upp lið. Það þýðir ekkert að lifa á fornri frægð og þið viljið skrifa nýja kafla í sögu félagsins.
„Við erum grjótharðir KA-menn sem erum hérna. Einar Rafn t.d. spilaði ekki neina rullu inni á vellinum í dag en hann tók að sér liðsstjórastöðuna fyrir Sæma löggu sem var með KA í gamla daga. Hann skilaði sínu hlutverki afar vel, reddaði hjálmun á stuðningsmenn og þetta var bara gamla góða KA-stemningin. Það var bara sturlun að spila hérna í KA-heimilinu í dag. Maður var bara pjakkur sjálfur þegar Arnór Atla og Árni Björn sjúkraþjálfari voru að setja tíu mörk í leik. Nú erum það bara við strákarnir sem erum að gera þetta.“
Þú minnist þarna á hjálma. Ég hef ekki séð þessa hjálma í stúkunni frá því á gullaldarárum KA. Hvaðan komu hjálmarnir?
„Án þess að vita það alveg nákvæmlega þá á Einar Rafn nóg af peningum og ég held að hann hafi bara keypt þessa hjálma sjálfur og látið þá sem ætluðu að vera áberandi í stuðningshópnum fá hjálma. Miðað við frammistöðu stuðningsmanna þá þarf hann að kaupa 600 hjálma því það voru allir með í dag.“
Stemningin í húsinu hefur oft verið góð en í dag var hún alveg sérstök með allt þetta gulklædda fólk sem hvatti ykkur allan leikinn.
„Við vonum að þessi stemning haldi áfram. Eins og ég sagði við fólkið okkar eftir leik þá eru það forréttindi að spila fyrir KA en enn þá meiri forréttindi að vera stuðningsmaður KA. Menn verða bara að lifa fyrir það og nýta sér að það er ekkert betra en að vera í KA.“
Lítill fugl hvíslaði því að mér að þú varir að leggja skóna á hilluna eftir þetta tímabil.
„Ef að það gerist þá verð ég bara stuðningsmaður númer eitt hjá strákunum. Ég hætti aldrei að vera hluti af KA. Við sjáum bara til.“
Þú ferð kannski bara á leikklukkuna og tekur þar við af pabba þínum.
„Já það er náttúrulega alltaf möguleiki á því“ sagði Jón Heiðar og skellihló.