Karlalið Hauka eru úr leik í bikarkeppni HSÍ, Coca-Cola bikarnum, eftir að hafa tapað 28:26 fyrir KA á Akureyri í dag. Haukar voru í vandræðum framan af en síðustu tuttugu mínúturnar voru þeir á hælum KA en tókst aldrei að brúa sex marka forskotið sem KA náði í upphafi seinni hálfleiks.
Aron Kristjánsson þjálfari var þungur á brún eftir leik og hafði þetta að segja:
„Við vorum nálægt þessu en spilamennskan var ekki nógu góð í fyrri hálfleiknum og svo kemst KA í 18:12 í byrjun seinni hálfleiks. Við spiluðum ekki nógu vel sóknarlega í dag. Við stóðum vel á þá í vörninni sex gegn sex. Við vorum hins vegar að klúðra ágætis færum og í kjölfarið var sóknarleikurinn stirður og við vorum að sækja færin of snemma. Mér fannst við missa hausinn í nokkrar mínútur og þeir komust í 11:7 áður en ég tók annað leikhlé. Það er ekki oft sem maður tekur tvö leikhlé í fyrri hálfleik. Þetta voru þá fjögur mörk í hálfleiknum 15:11. En eftir að þeir komust í 18:12 þá fannst mér við spila nokkuð vel. Þá náðum við ágætis tökum á okkar leik og varnarleikurinn var þéttur og markvarslan líka.“
Já KA skoraði bara þrjú mörk á næstu sextán mínútum og þið voruð í bullandi séns á að ná þeim.
„Við fengum hvað eftir annað tækifæri á að minnka í eitt mark en þá vorum við að klúðra færum og missa boltann. Við vorum hreinlega ekki nógu beittir. Við skorum fimmtán mörk í seinni hálfleiknum en klúðrum samt of mörgum ákjósanlegum færum. Við vorum bara ekki nægilega skarpir. Það vantaði lítið uppá og við hefðum bara þurft að spila 5% betur í fyrri hálfleik til að vera í jöfnum leik.“
Þetta sex marka forskot sem KA náði bara dugði þeim. Þeir héngu á því út leikinn.
„Þeir náðu að hanga á því þótt við næðum að spila frábæran varnarleik lengstum í seinni hálfleik. Þá má bara ekki klúðra dauðafærum þar sem munurinn er mikill og það þarf að vera mjög beittur til að éta það forskot upp. Svo var líka mjög svekkjandi að fá ekki ruðningsdóm í lokasókn KA. Þetta var ruðningur og við marki undir, lítið eftir og séns á hraðaupphlaupi. Reyndar dæmdu dómararnir leikinn mjög vel.“
Þá er það gamla tuggan. Að klára deildina. Þið hafið verið á miklu skriði. Eitt tap gegn FH en margir sigrar upp á siðkastið, oftast í jöfnum leikjum. Það sýnir sig að þið eruð seigir.
„Það er svekkjandi að vera ekki með í Final-4 þar sem spilað er á Ásvöllum, okkar heimavelli. Við lítum vel út, höfum æft vel og spilað vel. Því er fúlt að ná ekki betri frammistöðu í dag. Við höfum náð sigrum í jöfnum leikjum en það einkennir oft betri liðin að ná sigri þótt spilamennskan sé ekkert frábær. Svona er þetta bara. Ég vildi meira í dag en vil óska KA-mönnum til hamingju. Stemningin í húsinu var góð og það hjálpaði KA-mönnum“ sagði Aron að lokum.