„Við vorum búin að fá frestun“

Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari HK-inga, á hliðarlínunni í kvöld.
Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari HK-inga, á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari kvennaliðs HK, kom í stutt spjall eftir að KA/Þór hafði unnið HK 30:20 í átta liða úrslitum bikarkeppni HSÍ í dag. HK lenti fljótlega undir í leiknum en hékk í KA/Þór fram í seinni hálfleik. Í stöðunni 15:13 tók KA/Þór leikinn endanlega í sínar hendur og sigldi öruggum sigri í höfn. 

Þetta var erfitt fyrir ykkur í dag og það molnaði undan ykkur í seinni hálfleik. 

„Þá vorum við að skjóta illa og Sunna var góð í markinu hjá KA/Þór“ sagði þjálfarinn. „Mér fannst við eiga fullt af færum og eiga fullan séns í þennan leik. Mér fannst við bara góðar þrátt fyrir allt. Það eru skotin sem draga úr okkur tennurnar í þessum leik.“ 

Nú þekki ég ekki HK-liðið nógu vel en þú virðist vera með mjög ungt lið. 

„Þetta eru ungar og efnilegar stelpur og góðar. Það reyndar vantar nokkrar hérna í dag en HSÍ getur kannski svarað fyrir það.“ 

Var HK þá búið að biðja um að fresta leiknum? 

„Nei við vorum búin að fá frestun og þetta snýst um það að okkur var tjáð það frá okkar rútufélagi að það væri ekki fært norður. Við vorum búin að fá já við því klukkan tíu en það breyttist svo.“ 

Þannig að það urðu leikmenn eftir fyrir sunnan. 

„Það urðu einhverjar eftir, sem eiga börn og eru með börn á brjósti. Þær tóku ekki sénsinn miðað við hvernig spáin var. Það var alveg greiðfært en eins og ég segi við hlustum á fagmenn og það var ekki fagmennska alla leið í gegn.“ 

En aftur að þínum konum. Þú virðist vera með ansi skemmtilegan efnivið. 

„Það er góður efniviður í HK og það eru ekki bara þessar stelpur. Liðin í 3. og 4. flokki eru að standa sig vel og það er mikil framtíð í HK. Við þurfum auðvita að tengja leiki og skila þessum leikmönnum upp alla leið. Ef þetta heldur svona áfram þá kemur fullt af góðum leikmönnum upp og við höldum áfram að vera í baráttu líka.“ 

Mér heyrist þú vera bjartsýnn á framtíðina. 

„Það er alltaf bjart yfir Kópavoginum. Það er flott framtíð hjá okkar iðkendum en við þurfum að skila þeim upp og gera frambærilegt meistaraflokkslið“ sagði Halldór Harri að lokum 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert