Ein sú reyndasta framlengir

Karen Knútsdóttir í leik með Fram gegn ÍBV í síðasta …
Karen Knútsdóttir í leik með Fram gegn ÍBV í síðasta mánuði. mbl.is/Óttar Geirsson

Karen Knútsdóttir, hin þaulreynda handknattleikskona í herbúðum Fram, hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við handknattleiksdeild félagsins.

Gildir samningurinn út leiktímabilið 2024/2025.

Fram er á toppi úrvalsdeildar kvenna, Olísdeildarinnar, um þessar mundir, þremur stigum á undan Val og á auk þess leik til góða.

„Karen er frábær leikmaður og karakter sem lið sem vilja vera í fremstu röð myndu öll vilja hafa innan sinna raða.

Það er einkar ánægjulegt fyrir okkur í Fram að hún ætli að taka slaginn áfram en það er ekki síður mikilvægt fyrir kvennahandboltann á Íslandi enda er Karen án vafa ein af þeim betri sem hefur spilað íþróttina hér á landi,“ sagði Bjarni Kristinn Eysteinsson, formaður handknattleiksdeildar Fram við þetta tilefni.

Karen, sem er 31 árs gömul, var ekki valin í íslenska A-landsliðið sem mætir Tyrklandi í tveimur leikjum í mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert