Valur tryggði sér sæti í undanúrslitum Coca Cola-bikars kvenna í handbolta með 26:24-heimaisgri á Haukum í kvöld.
Haukar byrjuðu betur og komust í 6:3 snemma leiks en Valur jafnaði í 8:8 og komst yfir í fyrsta skipti í kjölfarið, 9:8. Valur hélt undirtökunum út hálfleikinn og var að lokum fjórum mörkum yfir í hálfleik, 14:10.
Valskonur náðu mest sex marka forskoti í seinni hálfleik og virtust ætla að sigla öruggum sigri í höfn. Haukar neituðu hinsvegar að gefast upp og minnkuðu muninn í tvö mörk þegar skammt var eftir, 23:21. Næst komust Haukar ekki og Valur fagnaði tveggja marka sigri.
Morgan Marie Þorkelsdóttir var markahæst hjá Val með sjö mörk og Lovísa Thompson gerði sex. Elín Klara Þorkelsdóttir skoraði átta fyrir Hauka og Sara Odden sex. Margrét Einarsdóttir varði 16 skot í markinu hjá Haukum.
Fram og KA/Þór tryggðu sér sæti í undanúrslitum um helgina. FH, Stjarnan eða ÍBV verður fjórða liðið í undanúrslitum.