Rakel Sara Elvarsdóttir var markahæst í liði KA/Þórs þegar Akureyringar unnu fjögurra marka sigur gegn HK í úrvalsdeild kvenna í handknattleik, Olísdeildinni, í Kórnum í Kópavogi í kvöld.
Leiknum lauk með 31:27-sigri KA/Þórs en Rakel Sara skoraði 8 mörk í leiknum.
Jafnræði var með liðunum til að byrja með en Akureyringar sigur fram úr um miðbik fyrri hálfleiks og létu forystuna aldrei af hendi eftir það.
Martha Hermannsdóttir og Rut Jónsdóttir skoruðu 6 mörk hvor fyrir KA/Þór en Jóhanna Margrét Sigurðardóttir var markahæst í liði HK með 12 mörk.
KA/Þór fer með sigrinum upp í þriðja sæti deildarinnar í 17 stig en HK er með 9 stig í áttunda sætinu.