Færeyska handknattleiksfélagið Neistin hefur sagt íslenska þjálfaranum Arnari Gunnarssyni upp störfum en hann hefur þjálfað karlalið félagsins í hálft annað ár.
Handbolti.is skýrir frá þessu og Arnar segir við netmiðilinn að hann hefði verið boðaður á fund og sér verið sagt upp störfum í kjölfarið á ósigri gegn H71 í úrslitaleik færeysku bikarkeppninnar um síðustu helgi. Hann hefði stefnt að því að flytja heim til Íslands í sumar en hefði alltaf ætlað að standa við sinn samning og ljúka tímabilinu.
Arnar tók við Neistanum sumarið 2020 en hann þjálfaði áður m.a. hjá Fjölni, Selfossi og HK, sem og í Þýskalandi.