Arnór Snær Óskarsson var markahæstur Valsmanna þegar liðið vann öruggan sigur gegn Fram í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Framhúsi í Safamýri í kvöld.
Arnór Snær skoraði níu mörk í leiknum sem lauk með sjö marka sigri Valsmanna, 32:25.
Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og var staðan 14:13, Fram í vil, í hálfleik. Valsmenn sigu hins vegar fram úr um miðjan síðari hálfleikinn og fögnuðu öruggum sigri í leikslok.
Stiven Valencia skoraði 7 mörk fyrir Val og Björgvin Páll Gústavsson átti stórleik í markinu, varði 16 skot og var með 43,2% markvörslu.
Stefán Darri Þórsson, Rögvi Christianesen, Ólafur Jóhann Magnússon og Þorsteinn Gauti Hjálmarsson skoruðu fjögur mörk hver fyrir Fram.
Valur er með 22 stig í þriðja sæti deildarinnar, tveimur stigum minna en topplið FH og Hauka, en Fram er með 12 stig í níunda sætinu.
Þá skoraði Andri Þór Helgason 9 mörk fyrir Gróttu þegar liðið vann fimm marka sigur gegn HK í Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi en leiknum lauk með 30:25-sigri Gróttu. Þetta var algjör lykilleikur í botnbaráttunni þar sem HK hefði átt aukna von um að halda sér í deildinni með sigri.
Nú er Grótta hinsvegar komin með 9 stig í tíunda sætinu en HK er í því ellefta með 3 stig og því er staðan orðin mjög erfið hjá Kópavogsliðinu.
HK leiddi með einu marki í hálfleik, 13:12, en þegar fimmtán mínútu voru til leiksloka náðu Seltirningar þriggja marka forskoti, 22:19.
HK-ingum tókst ekki að ógna forskoti Gróttu eftir það og Seltirningar fögnuðu þægilegum sigri þegar uppi var staðið.
Birgir Steinn Jónsson skoraði 7 mörk fyrir Gróttu og Einar Baldvin Baldvinsson varði 13 skot í markinu og var með 35% markvörslu.
Einar Pétur Pétursson skoraði 6 mörk fyrir HK og Einar Bragi Aðalsteinsson og Kristján Ottó Hjálmsson skoruðu 5 mörk hvor fyrir HK.