Marija Jovanovic reyndist hetja ÍBV þegar liðið lagði Stjörnuna að velli í átta liða úrslitum bikarkeppni kvenna í handknattleik, Coca-Cola-bikarnum, í Vestmannaeyjum í kvöld.
Marija tryggði ÍBV sigur með marki úr vítakasti á lokasekúndum leiksins sem lauk með 27:26-sigri ÍBV.
Eyjakonur voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og náðu mest fimm marka forskoti, 9:4, eftir um fimmtán mínútna leik. Garðbæingum tókst að laga stöðuna og ÍBV leiddi með tveimur mörkum í hálfleik, 15:13.
Eyjakonur náðu sex marka forskoti um miðjan síðari hálfleikinn, 23:17, en Garðbæingum tókst að jafna metin í 26:26 þegar mínúta var til leiksloka. Hafnhildur Hanna Þrastardóttir fiskaði víti fyrir ÍBV undir restina sem Marija svo skoraði úr.
Títtnefnd Marija átti stórleik fyrir ÍBV, skoraði 11 mörk og Elísa Elíasdóttir skoraði 5 mörk. Helena Rut Örvarsdóttir var markahæst í liði Stjörnunnar með 10 mörk og Eva Björk Davíðsdóttir skoraði 6 mörk.
ÍBV er því komið áfram í undanúrslitin líkt og Valur, KA/Þór og Fram en undanúrslitin fara fram 9. mars að Ásvöllum og úrslitaleikurinn hinn 12 mars, einnig að Ásvöllum í Hafnarfirði.