Viktor Gísli Hallgrímsson og liðsfélagar hans í toppliði GOG í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik karla töpuðu sínum fyrsta leik í deildinni á tímabilinu þegar þeir heimsóttu Ribe-Esbjerg í kvöld.
Landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli varði eitt skot af átta sem hann fékk á sig í marki GOG þegar liðið tapaði 27:30.
GOG hefur verið í sérflokki í dönsku úrvalsdeildinni á tímabilinu og var fyrir leikinn búið að vinna 20 leiki, gera eitt jafntefli og tapa engum.
Fyrsta tapið kom hins vegar í kvöld í 22. deildarleik liðsins en þrátt fyrir það heldur GOG toppsætinu enda enn sex stigum fyrir ofan ríkjandi Danmerkurmeistara Álaborgar.