Stefán Arnar Gunnarsson hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs HK í handknattleik. Þetta kom fram í fréttatilkynningu sem félagið sendi frá sér í dag.
Stefán Arnar tekur við starfinu af Halldóri Harra Kristjánssyni sem var sagt upp störfum í gær eftir fjögur ár sem starfsmaður félagsins.
Stefáni Arnari var einnig sagt upp störfum á dögunum, hjá Neista í Færeyjum, en hann hefur einnig stýrt Fjölni, Selfossi og KA hér á landi. Þá hefur hann þjálfað í Færeyjum, Noregi og Þýskalandi á ferlinum.
„Arnar hefur áður starfað fyrir HK og hefur alla tíð síðan verið í miklum metum hjá félaginu enda fagmaður fram í fingurgóma,“ segir meðal annars í tilkynningu HK-inga.
„Þegar hlutirnir þróuðust á þann veg að hann var allt í einu á lausu þá lá það beinast við að við myndum reyna það sem við gætum til þess að landa honum,“ segir ennfremur í tilkynningunni.
HK er í sjöunda og næstneðsta sæti úrvalsdeildarinnar, Olísdeildarinnar, með 9 stig eftir fimmtán leiki.