Selfoss vann 27:26 sigur á Stjörnunni í sannkölluðum spennutrylli í TM-höllinni í Garðabæ í Olísdeild karla í handbolta í kvöld.
Leikurinn var í járnum fram á síðustu mínúturnar en tvö mörk Selfoss í röð þegar um þrjár mínútur voru eftir breyttu stöðunni úr 25:25 í 27:25. Stjarnan náði að minnka muninn í eitt mark en komst ekki nær.
Ragnar Jóhannsson og Guðjón Baldur Ómarsson voru markahæstir í liði Selfoss með sjö mörk hvor. Hjá Stjörnunni voru Starri Friðriksson og Þórður Tandri Ágústsson markahæstir með fimm mörk hvor.
Eftir leikinn er Stjarnan í fimmta sæti deildarinnar með 18 stig eftir 16 leiki. Selfoss er sæti neðar með stigi minna eftir jafn marga leiki.