Afturelding vann nauman 26:25-sigur á HK í Olísdeild karla í handbolta í dag. Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði sigurmarkið í blálokin.
HK komst þremur mörkum yfir í fyrri hálfleik, 10:7, en þegar hálfleiksflautið gall var Afturelding komin yfir, 15:14.
HK var ekki lengi að jafna í seinni hálfleik og var leikurinn jafn og æsispennandi allt til loka, en að lokum fögnuðu Mosfellingar sigri.
Blær Hinriksson skoraði sjö mörk fyrir Aftureldingu og þeir Þorsteinn Leó Gunnarsson og Sveinn Andri Sveinsson gerðu fimm hvor. Einar Pétur Pétursson skoraði átta fyrir HK og Hjörtur Ingi Halldórsson sjö.
Afturelding er í sjötta sæti með 16 stig en HK er í ellefta sæti með þrjú stig, sex stigum frá öruggu sæti.