Valur bikarmeistari í áttunda sinn

Valskonur eru bikarmeistarar 2022.
Valskonur eru bikarmeistarar 2022. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Valur sigraði í áttunda sinn í bikarkeppni kvenna í handknattleik í dag þegar liðið vann Fram 25:19 í úrslitaleik Coca Cola-bikarsins, á Ásvöllum í Hafnarfirði í dag. 

Fram hefur orðið bikarmeistari oftast allra, sextán sinnum, en Valur hefur unnið bikarinn sjö sinnum.

Valur hafði yfir 12:11 að loknum fyrri hálfleik. Þá var leikurinn í járnum og liðin höfðu verið með forystu á víx. Fram byrjaði ívið betur í leiknum og var yfir 5:2 en Valur jafnaði 5:5. Seint í fyrri hálfleik skoraði Valur fjögur mörk í röð og breytti þá stöðunni úr 8:6 í 8:10. Sama gerðist í undanúrslitaleiknum hjá liðinu gegn ÍBV á fimmtudagskvöldið. 

Fram byrjaði einnig örlítið betur í upphafi síðari hálfleiks og tók forystuna 15:14. Þá tók gamli refurinn Ágúst Þór Jóhannsson leikhlé hjá Val og eitthvað virðist hann hafa þá átt uppi í erminni því Valur skoraði næstu fjögur mörk. 

Eftir þetta náði Fram að minnka muninn í tvö mörk en komst ekki nær og á lokakaflanum fór spennan úr leiknum. Valur vann með sex marka mun sem gefur ekki alveg rétta mynd af leiknum. Alla vega ekki fyrstu fimmtíu mínútunum en sigurinn var sanngjarn. 

Thea Imani Sturludóttir leikmaður Vals lætur vaða að marki Fram …
Thea Imani Sturludóttir leikmaður Vals lætur vaða að marki Fram í leiknum. mbl.is/Óttar Geirsson

Lovísa Thompson átti stórleik bæði í vörn og sókn. Var sívinnandi og vinnusemin skilaði tíu mörkum og ófáum stoppum í vörninni. 

Þrjár landsliðskonur voru Val mikilvægar í dag. Thea Imani Sturludóttir var ógnandi og skilaði sex mörkum. Hún fékk tvær tveggja mínutna brottvísanir snemma leiks en tókst að spila út leiktímann. Hildigunnur Einarsdóttir var í stóru hlutverki í miðri vörninni. Sara Sif Helgadóttir átti ágætan leik í marki Vals og varði 11 skot. 

Emma Olsson fékk rauða spjaldið hjá Fram fyrir ásetningsbrot. Það var kannski ekki á annað bætandi því Ragnheiður Júlíusdóttir er ekki leikfær eftir veikindi og Steinunn Björnsdóttir er enn frá vegna meiðsla. 

Valur náði að halda Fram undir 20 mörkum og það gerist ekki á hverjum degi. Fram saknaði Ragnheiðar í sókninni enda skilar hún ávallt góðum skerf af mörkum. Karen Knútsdóttir og Hildur Þorgeirsdóttir búa ekki yfir sama styrk og sprengjukrafti og þegar þær voru yngri. Andstæðingarnir þurfa því ekki að hafa alveg eins mikið fyrir því og áður að stöðva þær í stöðunni maður á móti manni. Karen var hins vegar oft mjög klók í leiknum og skilaði góðu framlagi. Vann til dæmis boltann tvívegis og skoraði úr hraðaupphlaupum í kjölfarið. 

Fram er með landsliðskonu í hægra horninu, Þóreyju Rósu  Stefánsdóttir, en hún fékk litla þjónustu í dag. Vel gekk að opna fyrir Perlu Ruth Albertsdóttur í upphafi leiks en svo lokaði Valur fyrir það. Hafdís Renötudóttir varði sex skot í marki Fram og Fram hefði þurft að fá meira frá henni til að vinna. 

Fram 19:25 Valur opna loka
60. mín. Saga Sif Gísladóttir (Valur) varði skot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert