Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs, var til viðtals eftir tap síns liðs gegn ÍBV í Vestmannaeyjum í kvöld.
Vegna leiksins þarf KA/Þór að vera á ferðalagi í 3 daga og því fúlt fyrir þær að uppskera ekki í leiknum. ÍBV seig fram úr á lokakaflanum og innbyrti 26:24 sigur, en liðið skoraði fjögur síðustu mörk leiksins.
„Þetta fer bara á lokakaflanum, okkur vantaði að komast yfir frostkafla í sókn. Við skutum í stöng og náðum því miður ekki að skora í ágætis færum. ÍBV gerði það hins vegar og í svona leikjum þá þarf að skora á stóru augnablikunum, ÍBV gerði það en ekki við.“
Versti kafli KA/Þórs kom í lokin en það var mjög fúlt fyrir liðið að hafa ekki tíma til að svara fyrir þann kafla.
„Það er 100%, þegar það eru 5-6 mínútur eftir þá erum við með frumkvæðið og með þær að mér fannst. Það er bara þannig, ÍBV og KA/Þór eru mjög áþekk lið, það var alveg vitað að þetta myndi ráðast í lokin. ÍBV náði að hnoða inn mörkum en ekki við og svona er það,“ sagði Andri.
Hornamenn gestanna náðu sér ekki á strik í dag en Andri segir alla leikmenn liðsins hafa gefið allt sem þær áttu í leikinn.
„Ég get bara sagt það að við lögðum allar allt í þetta, það voru allir sem að kláruðu allar keppnisfrumurnar í dag, ég er ákaflega stoltur af liðinu eftir þriggja daga ferðalag í þennan eina leik. Við erum búnar að setja mikið í þetta og ég er rosalega stoltur af stelpunum sem sýndu alvöru baráttu og ég get ekki farið fram á meira frá þeim,“ sagði Andri en þetta er annað tap liðsins í röð, hvernig ætla þær að slíta sig frá tapinu?
„Úr þessum leik tökum við allavega frammistöðuna, við erum með mjög margt gott í dag í frammistöðunni, varnarlega á köflum mjög góðar, fengum markvörslu og það er hægt að byggja á helling af hlutum sóknarlega líka, ég er bara að horfa í það. Við erum að verða betri, við vorum langt frá okkar besta á móti Fram en í dag var þetta alvöru frammistaða.“
Andri var mjög ósáttur undir lokin þegar Unnur Ómarsdóttir fór í gegn og var nokkuð augljóslega brotið á henni, hvað sá Andri þar?
„Fyrir mér var þetta augljóst vítakast, ég er gamall hornamaður og veit að þetta er alltaf víti og meira að segja tvær mínútur, mér fannst það að dæma ekki neitt, vera mjög súrt. Það er búið og áfram gakk,“ sagði Andri sem horfir bjartur fram á veginn en hans lið er í 3. sæti deildarinnar. Efstu tvö liðin fara beint í undanúrslit en liðin í 3. og 4. sæti eiga heimaleikjarétt í úrslitakeppninni.