Elvar Ásgeirsson kom sem stormsveipur inn í íslenska karlalandsliðið í handknattleik þegar hann lék sína fyrstu A-landsleiki í milliriðli á EM í Ungverjalandi í janúar síðastliðnum, þar sem Ísland hafnaði að lokum í sjötta sæti.
Þrátt fyrir að eiga engan landsleik að baki áður en hann mætti nokkrum af sterkustu þjóðum heims í milliriðli, þar á meðal Danmörku, Frakklandi og Króatíu, virtist Elvar hreinlega ekki hafa gert annað en að leika handknattleik á einu stærsta sviði íþróttarinnar.
„Þetta hefur bara verið ógeðslega gaman. Ég er búinn að vera mjög glaður með að vera í hópnum og hluti af honum. EM var náttúrlega eins og það var.
Það voru fyrstu leikirnir mínir og það var geggjað fyrir mig. Það er alltaf gaman að koma heim og spila og æfa með mönnum í heimsklassa, þetta er bara draumur,“ sagði Elvar í samtali við mbl.is fyrir æfingu landsliðsins í Framhúsi í þarsíðustu viku.
Elvar, sem er 27 ára gömul rétthent skytta, leikur sem atvinnumaður með Nancy í frönsku 1. deildinni og var þar á undan hjá Stuttgart í Þýskalandi. Miðað við frammistöðuna á EM og góða reynslu fyrir mótið, hefði hann viljað að fyrsti landsleikurinn hefði komið fyrr?
„Það hefði kannski verið fínt upp á taugarnar að vera búinn að spila nokkra landsleiki en þetta er bara eins og það er. Ég held bara áfram. Ég er búinn að vera að reyna að leggja mikið á mig, alltaf með þetta sem gulrót að vera hluti af þessu liði.
Samkeppnin er náttúrlega ótrúlega mikil. Við eigum núna urmul af góðum leikmönnum í allar stöður. Ég ætla bara að halda áfram að reyna að vera hérna inni,“ sagði Elvar.
Hann mun söðla um í sumar og flytja til Danmerkur og hefur þegar skrifað undir tveggja ára samning við danska úrvalsdeildarfélagið Ribe-Esbjerg.
„Það leggst mjög vel í mig. Ég er mjög ánægður með að þetta hafi gengið í gegn núna nýlega.
Það var náttúrlega heillaskref fyrir mig að fara til Frakklands og fá lykilhlutverk í liðinu og spila mikið en þess fyrir utan hefur okkur fjölskyldunni kannski ekkert liðið eins vel og við vildum og annað þvílíkt.
Þannig að ég er bara mjög spenntur. Mér líst vel á þjálfarann og liðið. Það er mikill spenningur fyrir næsta tímabili,“ sagði Elvar.
Spurður hvort fleiri lið hafi komið til greina sagði hann: „Já, áframhald í Frakklandi var í boði, það var einhver áhugi sem fór svo sem ekki lengra af því að okkur langaði svolítið að skipta um umhverfi.“
„Það voru einhverjir möguleikar í stöðunni en okkur leist best á þetta, líka upp á hlutverk mitt í liðinu að gera. Það lítur allt saman vel út þar,“ sagði Elvar að lokum í samtali við mbl.is.